Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins

Úrskurður félagsmálaráðuneytis 10/2021

Mánudaginn 9. ágúst 2021 var í félagsmálaráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi:

 

ú r s k u r ð u r:

 

Með erindi til félagsmálaráðuneytisins, dags. 5. febrúar 2021, kærði […], lögmaður, fyrir hönd OFG - Verks ehf., kt. 491101-2530, og […], sem er albanskur ríkisborgari, fd. […], ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 6. janúar 2021, um synjun á framlengingu tímabundins atvinnuleyfis til handa […] í því skyni að ráða sig til áframhaldandi starfa hjá OFG - Verki ehf.

 

I. Málavextir og málsástæður.

Mál þetta varðar synjun Vinnumálastofnunar á framlengingu tímabundins atvinnuleyfis til handa […] sem er albanskur ríkisborgari, í því skyni að ráða sig til áframhaldandi starfa hjá OFG - Verki ehf. Vinnumálastofnun synjaði um veitingu atvinnuleyfisins með vísan til 9. gr. laga nr. 97/2002, um atvinnuréttindi útlendinga.

 

Þeirri ákvörðun vildu kærendur ekki una og kærðu þeir ákvörðunina til ráðuneytisins með tölvubréfi, dags. 5. febrúar 2021.

 

Með bréfi ráðuneytisins til kærenda, dags. 19. febrúar 2021, óskaði ráðuneytið eftir upplýsingum um ástæður þess að umrædd stjórnsýslukæra hafi borist ráðuneytinu að loknum lögbundnum kærufresti og var frestur veittur til 5. mars 2021 til að veita ráðuneytinu umbeðnar upplýsingar.

 

Í svarbréfi kærenda, dags. 25. febrúar 2021, kemur fram að ákvörðun Vinnumálastofnunar hafi ekki borist kærendum fyrr en 13. janúar 2021 og því hafi lögbundinn kærufrestur ekki liðið fyrr en 11. febrúar 2021 að mati kærenda.

 

Með tölvubréfi ráðuneytisins til Vinnumálastofnunar, dags. 1. mars. 2021, óskaði ráðuneytið eftir upplýsingum um hvenær ákvörðun stofnunarinnar hafi verið send kærendum. Í svari Vinnumálastofnunar, sem barst ráðuneytinu sama dag með tölvubréfi, kemur fram að ákvörðun stofnunarinnar hafi verið send með tölvubréfi til kærenda þann 6. janúar 2021 og með bréfpósti þann 8. janúar 2021.     

 

Með bréfi ráðuneytisins til kærenda, dags. 22. mars 2021, vísaði ráðuneytið til framangreindra upplýsinga frá Vinnumálastofnun þess efnis að ákvörðun stofnunarinnar, dags. 6. janúar 2021, hafi verið send með tölvubréfi til kærenda þann sama dag. Í bréfi ráðuneytisins var jafnframt vísað til þess að skv. 39. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, teljist stjórnvaldsákvörðun birt aðila þegar hann á þess kost að kynna sér efni hennar. Í bréfinu óskaði ráðuneytið því á ný eftir upplýsingum um ástæður þess að umrædd stjórnsýslukæra hafi borist ráðuneytinu að liðnum lögbundnum kærufresti og var frestur veittur til 9. apríl 2021 til að veita ráðuneytinu umbeðnar upplýsingar.

 

Í svarbréfi kærenda, dags. 12. apríl 2021, ítrekuðu kærendur áður fram komin sjónarmið þess efnis að umrædd ákvörðun Vinnumálastofnunar hafi ekki borist þeim fyrr en 13. janúar 2021 og að kærufrestur hafi því að þeirra mati ekki byrjaði að líða fyrr en frá og með því tímamarki. Að mati kærenda breyti ákvæði stjórnsýslulaga um rafræna stjórnsýslu því ekki. Þá er það jafnframt mat kærenda að fallist ráðuneytið ekki á fyrrnefndar röksemdir verði að teljast afsakanlegt í skilningi 28. gr. stjórnsýslulaga að kæran hafi ekki borist fyrr þar sem kærendur hafi þurft að finna sér lögmann á Íslandi sem hafi reynst þeim torsótt auk þess sem afla hafi þurft fjármuna til þess að greiða honum. Þá benda kærendur á að viðkomandi útlendingur hafi verið með atvinnuleyfi hér á landi síðastliðinn fjögur ár og fái hann framlengingu í eitt ár í viðbót verði hann kominn með ótímabundið dvalarleyfi. Til staðar séu því veigamiklar ástæður fyrir því að málið fái efnislega umfjöllun.

 

Með tölvubréfi ráðuneytisins til Vinnumálastofnunar, dags. 21. júní 2021, óskaði ráðuneytið eftir frekari upplýsingum um hvort stofnunin hafi átt í samskiptum við kærendur á rafrænu formi eða hvort samskipti stofnunarinnar við kærendur hafi verið með bréfpósti áður en umrædd ákvörðun hafi verið tekin. Þá óskaði ráðuneytið jafnframt eftir upplýsingum um hvort kærendur hafi átt frumkvæði að rafrænum samskiptum við stofnunina í tengslum við mál þetta. Í tölvubréfi Vinnumálastofnunar, dags. 23. júní 2021, kemur fram að umsókn kærenda um framlengingu á tímabundnu atvinnuleyfi til handa viðkomandi útlendingi hafi borist stofnuninni með bréfi, dags. 24. júní 2020, og að bréf stofnunarinnar um frestun á afgreiðslu umsóknar um atvinnuleyfi hafi verið póstlagt þann 2. júlí 2020. Svar hlutaðeigandi atvinnurekanda við framangreindu bréfi Vinnumálastofnunar hafi hins vegar borist stofnuninni með tölvubréfi þann 14. júlí 2020 og hafi samskipti stofnunarinnar og kærenda farið fram með tölvubréfum í kjölfarið.

 

II. Niðurstaða.

Samkvæmt 1. mgr. 34. gr. laga nr. 97/2002, um atvinnuréttindi útlendinga, er atvinnurekanda og útlendingi sameiginlega heimilt að kæra til félagsmálaráðuneytisins ákvarðanir Vinnumálastofnunar á grundvelli laganna og er kærufrestur fjórar vikur frá því að tilkynning barst um ákvörðun Vinnumálastofnunar, sbr. 2. mgr. sama ákvæðis.

 

Að mati ráðuneytisins verður ekki annað séð af gögnum málsins en að ákvörðun Vinnumálastofnunar hafi borist kærendum sama dag og hún lá fyrir þann 6. janúar 2021 þar sem ákvörðunin var send kærendum með tölvubréfi þann sama dag.

 

Ráðuneytið bendir á að í 35. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er kveðið á um heimild til rafrænnar meðferðar stjórnsýslumáls. Í 2. mgr. ákvæðisins kemur fram að stjórnvald skuli nota rafræna miðlun upplýsinga við meðferð máls óski aðili þess sérstaklega. Hið sama gildi þegar aðili hafi að fyrra bragði notað þann búnað til rafrænna samskipta við stjórnvald sem stjórnvaldið hefur auglýst á vefsíðu sinni að standi til boða í slíkum samskiptum sbr. 2. málsl. 2. mgr. ákvæðisins.

 

Ráðuneytið bendir jafnframt á að skv. 1. mgr. 39. gr. stjórnsýslulaga telst stjórnvaldsákvörðun á rafrænu formi birt aðila þegar hann á þess kost að kynna sér efni ákvörðunarinnar og ber aðili máls ábyrgð á því að vél- og hugbúnaður hans fullnægi þeim kröfum sem til búnaðarins eru gerðar, sbr. 1. mgr. 35. gr., og nauðsynlegar eru svo að hann geti kynnt sér efni stjórnvaldsákvörðunar eða annarra gagna sem stjórnvald sendir honum á rafrænu formi.

 

Ráðuneytið lítur svo á að þegar hlutaðeigandi atvinnurekandi svaraði bréfi Vinnumálastofnunar með tölvubréfi, dags. 14. júlí 2020, hafi hann af fyrra bragði notað búnað til rafrænna samskipta og þar með óskað óbeint eftir rafrænni meðferð stjórnsýslumálsins, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 35. gr. stjórnsýslulaga. Að mati ráðuneytisins máttu kærendur því gera ráð fyrir að samskipti við Vinnumálastofnun yrðu áfram á rafrænu formi og því hafi þeir borið ábyrgð skv. 1. mgr. 35. gr. sem og 1. mgr. 39. gr. stjórnsýslulaga á því að vél- og hugbúnaður þeirra hafi fullnægt þeim kröfum sem nauðsynlegar eru svo þeir hafi getað kynnt sér efni þeirra gagna sem Vinnumálastofnun sendi þeim á rafrænu formi. Þá er það enn fremur álit ráðuneytisins að kærendur hafi jafnframt borið ábyrgð á að fylgjast með þeim gögnum sem þeim bárust frá Vinnumálastofnun vegna umrædds máls á rafrænu formi með sambærilegum hætti og hefðu samskiptin farið fram með bréfpósti.

 

Í ljósi framangreinds er það mat ráðuneytisins að kærendur hafi átt þess kost að kynna sér efni umræddrar ákvörðunar eftir að ákvörðunin var send til þeirra með tölvubréfi, dags. 6. janúar 2021, eða sama dag og ákvörðunin lá fyrir og að kærufresturinn hafi því runnið út fjórum vikum frá því tímamarki, sbr. 2. mgr. 34. gr. laga nr. 97/2002, um atvinnuréttindi útlendinga, sbr. einnig 8. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Er það því jafnframt mat ráðuneytisins að lögbundinn kærufrestur hafi verið runninn út í máli þessu áður en ráðuneytinu barst umrædd stjórnsýslukæra, dags. 5. febrúar 2021.

 

Þrátt fyrir ákvæði 34. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga fer um stjórnsýslukæru að öðru leyti samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. 5. mgr. ákvæðisins. Samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga ber að vísa stjórnsýslukæru frá berist hún að liðnum kærufresti nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar.

 

Að mati ráðuneytisins verður ekki annað ráðið af gögnum málsins en að kærendur hafi getað kært umrædda ákvörðun Vinnumálastofnunar til ráðuneytisins innan lögbundins kærufrests hafi þeir talið slíka ráðstöfun þjóna hagsmunum sínum. Í ljósi framangreinds lítur ráðuneytið svo á að kærendur hafi ekki sýnt fram á að afsakanlegar ástæður í skilningi 1. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga séu fyrir því að umrædd stjórnsýslukæra barst ráðuneytinu að liðnum lögbundnum kærufresti. Jafnframt verður að mati ráðuneytisins ekki ráðið af gögnum málsins að hagsmunir kærenda séu annars eðlis en almennt eigi við í sambærilegum málum og því verður að mati ráðuneytisins ekki talið að veigamiklar ástæður séu fyrir hendi sem mæli með því að stjórnsýslukæran verði tekin til efnislegrar meðferðar hjá ráðuneytinu, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga.

 

Með vísan til framangreinds er það niðurstaða ráðuneytisins að lögbundinn kærufrestur hafi verið runninn út í máli þessu áður en ráðuneytinu barst umrædd stjórnsýslukæra, dags. 5. febrúar 2021, og er kærunni því vísað frá ráðuneytinu, sbr. 34. gr. laga nr. 97/2002, um atvinnuréttindi útlendinga, og 28. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

 

Stjórnsýslukæru OFG - Verks ehf. og […], dags. 5. febrúar 2021, vegna ákvörðunar Vinnumálastofnunar, dags. 6. janúar 2021, um synjun á veitingu tímabundins atvinnuleyfis til handa […] í því skyni að ráða sig til áframhaldandi starfa hjá OFG - Verki ehf. er vísað frá félagmálaráðuneytinu.

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum